Færsluflokkur: Bloggar
Siðferðislög?
19.3.2009 | 01:15
[Mikið er smjattað á bloggum hér og þar um téða yfirlýsingu VG varðandi breytingu laga fyrir vændi og nektarstaði. Í stað fyrir að sprengja síður hjá fólki með lönguvitleysu-kommentum hef ég ákveðið frekar að skríða úr bloggfelum og tjá mig heiftarlega hér á heimavelli. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki talsmaður eða málpípa neins flokks eða sérlegrar hugmyndafræði, heldur vil ég aðeins reyna mitt besta til að koma minni skoðun frá. Ég er heldur ekki stuðningsmaður mansals eða hvers kyns þrælkunar á einum né neinum, þó það séu algeng 'rök' andstæðinga minna. Ég er harður feministi en ég er alveg jafn harður baráttumaður fyrir málfrelsi, þó svo það komi ekki alltaf vel við mann.
Hafandi sagt það; þá vil ég benda á hér og nú að í pistlinum hér fyrir neðan birtast tenglar og upplýsingar um efni sem tengist mansali, vændi, strippi, erótísku nuddi, feminisma, mannréttindum, tölfræði, könnunum, og rökvillum. Ef einhver er siðferðislega andvígur nýupptöldum atriðum þá mæli ég einfaldlega með að hætta bara að lesa, fá sér te og kveikja á heilasugunni þar til þið lognist út af.]
Fyrir okkur hin..... "hefst þá pistillinn."
Mannskepnan hefur lengi vel reynt, með misjöfnum árangri, að hafa ákveðna stjórn á sjálfum sér og sínum hvötum. Siðferðisreglur hafa breyst og mótast í aldanna rás, og viðmiðin í dag eru gjörólík þó maður líti ekki nema nokkra tugi ára aftur í tímann. Hlutir sem þóttu gjörsamlega út í hött eða jafnvel jaðra við (eða blátt áfram voru álitnir) geðsýki, teljast eðlilegir og hversdagslegir í nútíma vestrænu samfélagi. Við montum okkur af réttindum okkar sem einstaklingar og áherslu okkar á persónuleg val manneskjunnar varðandi líf sitt, skoðanir og hagi.
Því þykir mér furðulegt að sumt fólk skuli enn vera sannfært um það að siðferðislög; þ.e. lög sem reyna að hafa hemil á eða banna ákveðna hegðun eða atferli sem ráðandi hópur hefur óbeit á af hugmyndafræðilegum ástæðum; hafi einhverja dýpri meiningu eða marktækar afleiðingar í þjóðfélaginu.
Manni verður hugsað til núgildandi (að því er ég best veit) laga gegn fjárhættuspilum og eiturlyfjanotkun/sölu, sem, þrátt fyrir endalausar fréttir af lögregluaðgerðum og upptöku efna virðist engin áhrif hafa á framboð og eftirspurn fíkniefnanna. Á sama tíma halda stofnanir eins og Rauði Krossinn og SÁÁ úti spilakössum í sjoppum landsmanna þar sem téðar stofnanir (á einhvers konar útúrsnúnni undanþágureglu) misnota sér fíkn veikra aðila í spileríið, og bjóða svo upp á meðferð við henni í leiðinni? (að maður minnist nú ekki á að Ísland í heild sinni er fórnarlamb eins stærsta pókersvindls í heimi, en það er önnur saga)
Þegar Kaninn ákvað að banna sprúttið var það fljótt að sýna sig hvert starfsemin færði sig. Beinustu leið í undirheima skipulagðrar glæpastarfsemar. Fólk var ekki á þeim buxunum að hætta að sulla með Bakkusi þannig að framboðið einfaldlega færðist yfir til annars aðila, aðila sem var engum lögum bundinn nema sinni eigin græðgi, aðila sem er siðferðislega gjaldþrota og skítsama um það.
Vændisfóĺk og fólk innan kynlífsþjónustugeirans hefur ávallt þurft að hlýða á niðurlægingu, skammir og fyrirlitningu frá þeim sem telja sig yfir þau hafin. Manneskja sem selur sig er langoftast stimpluð sem einungis það; hóra/mella/gigolo, eins og að starfsvettvangur aðilans skilgreini algjörlega hver hún eða hann sé. Manneskjan er gerð að úrhraki, að bletti á hinu 'hreina þjóðfélagi', að tákngervingi kúgunar og misnotkunar, að raddlausu leiktæki sem óþarfi er að hlusta á. Þetta viðhorf er þekkt bæði frá kúnnum sem og þeim sem telja sig vera að 'vernda' vændisfólk fyrir sjálfu sér og sínu starfi með bönnum og boðum, að maður tali ekki um þá hópa sem bókstaflega fordæma þau point blank.
Endalaust heyrir maður vitnanir í hina svokölluðu 'sænsku leið' , og hversu ótrúlegt gagn og aðhald þetta módel veitir. Hinsvegar hef ég oft tekið eftir því að þau sem tjá sig mest um þessa yfirburða fínu lagagerð eru vanalega ekki hórur/mellur/gigoloar/úrhrök, heldur 'sérfræðingar', eða 'talsmaður feminista', sem hafa af því hag að túlka afleiðingar laganna jákvætt. Af hverju heyrum við aldrei neitt frá 'úrhrökunum' sjálfum?
"As a summary, I can tell you that the law against purchasing sexual services have increased the risks and the violence against sexworkers and the law against procurement make it impossible for us to work safely. "
"Prostitution is voluntary sexual service carried between consenting adults. If there is no agreement it is not about prostitution, then it's about enforced sex and sexual violence, for instance sexual slavery and victims of trafficking."
(SANS - Sexsaljare ock allierades Netverk i Sverige- beinn hlekkur)
"The current legislation and the Swedish prostitution policy reinforce the whore stigma, the social shame, and the stereotypical and biased image that surrounds the sale of sexual services. "
(SANS - Sexsaljare ock allierades Netverk i Sverige - beinn hlekkur )
Bretarnir hafa sömu sögu að segja:
"Effectively the government are outlawing consensual sex between consenting adults on the premise that it will prevent trafficking and abuse with in the sex industry. Clients and sex worker managements, and of course sex workers themselves, are the very people who are in the best position to inform the authorities of cases of concern and yet illogically these are the very people whom the government is choosing to criminalise."
"We think that changing the law - decriminalising sex work - is one of the steps towards it and it's a very important one. The same happened with gay rights, when they removed the laws that actually helped social attitudes to change as well."
(Politics.co.uk - Prostitution Law: Sex Workers Speak Out - beinn hlekkur )
"Sex workers themselves are the most determined to oppose exploitation and coercion within our industry, and closing our workplaces is not the way forward," said Ms Stephens. "Increased raids and closures of brothels will directly endanger the thousands who choose to work in this way, and indoor sex workers will pay the price if this measure is introduced."
(International Union of Sexworkers - www.iusw.org - beinn hlekkur )
Ég mun setja fleiri tengla inn í lok pistilsins á aðrar síður þar sem sjá má sömu viðmót frá nákvæmlega þeim aðilum sem lögin snúa að, eitthvað sem virðist ekki vera mjög vinsælt hjá VG og róttækum feministum nema þá að vitnisburðurinn stemmi við þeirra persónulegu hugmyndafræði. Engum dettur í hug að rífast jafn heiftarlega eða banna aðrar líkamlegar vinnur eins og t.d. hvers kyns dans, bardagaíþróttir, harða byggingarvinnu/verksmiðjuvinnu/fiskvinnslu, en strax og komið er suður fyrir nafla fer að líða yfir fólk í hrönnum líkt og á Viktoríutímabilinu!
Vændiskonur sem komið hafa fram og tjáð sig eru oft ásakaðar um að vera heilaþvegnar, með fórnarlamba-syndrome, of kúgaðar til að geta haft sjálfstæða skoðun (hvort sem manneskjan sjálf telji sig kúgaða eður ei), eða, í síðasta falli, að skoðanir og réttur þeirra sé ekki jafn rétti þeirra sem fara illa úr bransanum. Persónulega þykir mér það svipta það fólk sjálfsákvörðunarrétt að reyna að skipa þeim fyrir með lögum hvað það megi og megi ekki gera við líkama sína, þar sem kynfærin virðast hafa spes reglur.
Talsmenn lagagerðarinnar vilja hafa þann sið að henda saman allri kynlífstengdri þjónustu undir hatt þrælkunar og mansals. Skiptir þá ekki máli hvort þú ert að dansa topplaus upp á flippið eða til að vinna inn aukapening, selja kynlíf til að eiga mat fyrir fjölskyldu þína, eða þér hefur verið rænt af glæpagengi og ert neydd til að liggja hlekkjuð inni í herbergi allan daginn útúrdópuð gegn þínum vilja, þar sem hver sem er getur keypt upp og inn á þig, hvenær sem er, og hvernig sem þeim sýnist. Í þeirra augum (talsmannanna) er ALLT þetta sami hluturinn, á sér sömu rót og afleiðingar, og sama lagagerðin á að laga allt með töfrabaunum eða álíka. Engu máli skiptir í raun hvort manneskjan er að framkvæma aðgerðina viljug eða ekki. Þeirra pólitíska hugsjón trompar hvaða sjónarmið sem kemur upp.
Er það strippstöðunum að kenna að vændisstarfsemi þreifst nýlega á Hverfisgötunni í stórum stíl..? Er það Geira í Goldfinger að kenna að konurnar í Ármúlanum voru neyddar í vændi og haldið fangið? Er við Óðal að sakast að unglingsstúlkur í viðjum fíkniefna sjá oft enga aðra leið til að fjármagna vana sinn nema að selja sig hjá dílernum? Er það blautbolakeppni X-ins heitins að kenna að einstæðar mæður nútildags hér og þar í Reykjavík eru hugsanlega að velta fyrir sér möguleikanum á að drýgja tekjurnar með að taka 2-3 kúnna á mánuði? Svör óskast á póstkorti.
Ég tel að þetta bann muni í fyrsta lagi ekki hafa mikil áhrif á flesta þætti sem talið er upp hér fyrir ofan, nema þá að lokað verður fyrir 2-3 dansbúllur. Ég FAGNA því að skerpa eigi á lögum um mansal og þrælkun, og endurtek að ég er EKKI að mæla neinu bót sem er ekki með fullu upplýstu samþykki allra aðila. Það að nú eigi loksins að horfa raunsætt á mansalsvandamál á Íslandi með auknum stuðningi við fórnarlömb, athvörf og aðhald í bata og endurhæfingu, sálgæslu, sérglæpasveit og aðstoð við dvalarleyfi eru stór skref í baráttunni gegn þessum skelfilega glæp. En ég get ekki með góðri samvisku tekið undir það viðhorf að þrælkun og mansal séu sami hluturinn og aðkeypt líkamleg/kynferðisleg þjónusta milli tveggja eða fleiri fullorðinna aðila sem eru heilir á geði og gefa samþykki.
Nú lofa ég ykkur að ég fer að ljúka þessu, ef einhver er hérna með mér ennþá. Þegar hér er komið að vil ég taka smá beygju og vitna aðeins í um tölfræði og kannanir, eitthvað sem mikið er vísað í í hvers kyns fréttaflutningi og pistlum um 'vændisvandamálið'.
"In a highly-politicised debate where one side gets to control the discourse by censoring the subject at hand, they can say anything they want. If people never really get to see pornography, they won't know that it is less violent than other media, so the moral right can get away with claiming pornography is more violent. In this climate, it becomes difficult to point out that half a century of research and accumulated data conclusively proves that sexual openness and explicit media are not the problem. Question the moral right's position and they call you a child abuser."
Vinstri róttækir feministar vilja oft bendla saman klámnotkun og ofbeldisfulla hegðun, jafnvel barnagirnd, þó svo að ég hafi aldrei séð marktækar rannsóknir sem sýna fram á samhengi þar á milli. Í fréttinni sem ég tengi við má sjá þessa alhæfingu strax í 2.setningu: "Almennt séð séu slíkir staðir gróðrastía vændis og mansals." Bíddu....var ekki einhver blaðamaður dæmdur til að greiða milljónir í skaðabætur til Geira Gold fyrir að segja nákvæmlega þetta??! Hvar nákvæmlega eru gögnin sem styðja þessa fullyrðingu? Google-niðurstöður óskast með bréfdúfu.
Vissulega má sjá samhengi milli klám-misnotkunar t.d. innan heimila þar sem kynferðisleg misnotkun fer fram þá er klámið oft notað sem partur af ofbeldinu sem fer fram, eða við framkvæmd þess. Það þýðir ekki að klámið SJÁLFT sé illt og í eðli sínu 'misnotkun', heldur það samhengi sem það er notað í (sem við getum öll verið sammála um að er viðurstyggð). Auðvitað er klám ekkert yfir gagnrýni hafið, frekar en nokkuð annað, en heiðarleg umræða þar sem báðar hliðar fá að tjá sig er sjaldgæf og oftast ófullnægjandi. Ofan á þetta koma svo kenningar og hugmyndir um 'feðraveldið' og 'klámvæðingu', sem má rífast um þar til maður er blár í framan. Þar sem ég er nú þegar komin í hálfgerða lönguvitleysu þá sleppum við því í bili.
Ég er hinsvegar hörð á þeirri skoðun að lög og reglugerð eiga EKKI að byggjast á persónulegri sannfæringu einhvers pólitíkusar eða prests sem telur sig geta sagt hvað fólk má og má ekki gera með líkama sína. Ég er andvíg brjóstastækkunaraðgerðum og finnst gervibrjóst ljót, en ég ætla ekki að vaða inná þing og heimta að allar fegrunar-aðgerðir verði bannaðar! Þegar við erum komin á það svell að ætla að leika siðferðislöggur á heilu hjarðirnar af mannskepnum, þá er bara tímaspursmál þar til við brjótum ísinn og drukknum í skítköldu heilögu vatni. Það sem fullorðið fólk vill gera við líkama sína, hvort sem það er blása í brjóstin, húðflúra sig, brennimerkja sig, stunda kynlíf með öðrum aðila/aðilum fyrir framan myndavél, selja kynlífsþjónustu, hýða sig fyrir Guð eða menn, hylja sig frá toppi til táar þá skiptir það ekki máli; það á að vera val einstaklingsins en EKKI sjálfsskipaðra siðapostula núverandi valds.
- Universal Declaration of Human Rights, Article 19. (Libertus.net - beinn hlekkur )
"Books won't stay banned. They won't burn. Ideas won't go to jail. In the long run of history, the censor and inquisitor have always lost. The only sure weapon against bad ideas is better ideas. The source of better ideas is wisdom. The surest path to wisdom is a liberal education."
- A. Whitney Griswold, former President-Yale University, 1952
(Libertus.net - beinn hlekkur )
Prostitute's Collective
IUSW - International Union of Sex Workers
SANS - Sexsaljare ock allieredes Natverk i Sverige - enska
$pread Magazine
SWOP - Sex Workers Outreach Program (US)
SWOP EAST - Outreach Program (US)
Feminists Against Censorship
Feminists for Free Expression
www.libertus.net
Libertus er stór gagnagrunnur ritgerða, ræðna, greina og pistla um hvers kyns ritskoðun, rök gegn ritskoðun og stórt safn tengla á svipaðar síður. Mæli hiklaust með þessari síðu.
Ísland ríður á vaðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
9.SEPTEMBER???
4.2.2009 | 20:55
Baldur er greinilega orðinn svona gegnsýrður af amerískunni, 9/11 er 11. september, ekki 9.september.
Fagmennskan ávallt í botni hjá mbl.is
Páfagarður herðir skilyrði fyrir því að aflétta bannfæringu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Drungalegir dagar...
20.1.2009 | 17:18
Dauðinn virðist svífa yfir vötnum heima í litlu íbúðinni okkar. Mér finnst ég finna fyrir nærveru hans, fyrir einhvers konar andlegum þunga...yfirþyrmandi í sálinni minni.
Önnur kisan okkar (Ninja) er fárveik. Ég veit ekki hvað nákvæmlega er að henni, né virðist dýralæknirinn geta fundið út akkúrat hvað er að. Á föstudaginn varð hún allt í einu svo slöpp, virtist áhugalaus með öllu og hékk bara inni á baði þar sem gólfið er upphitað. Ég tók eftir að hún var hætt að fara að matarskálinni og borðaði lítið sem ekkert í þau skipti sem hún leitaði þangað. Hún sýndi engin viðbrögð og mjálmaði ekkert, sem er mjög óeðlilegt miðað við þessa fröken sem hafði það að vana að sýna okkur sem flest tilbrigði mjálms og mögulegt væri. Mikil kjaftatífa og karakter, var alltíeinu orðin eins og dópaður kettlingur á að líta. Við bjuggum um hana með hitabrúsum og handklæðum inni á baði og settum matinn inn með, til að halda henni og Baldri (hinum kettinum) í sundur.
Á laugardaginn hringdi ég á dýralæknastofuna á Skólavörðustíg (www.dagfinnur.is) og ræddi þar við lækninn í síma, sem bauð mér að koma bara með hana snöggvast og láta líta á. Ég varð ótrúlega þakklát að heyra að hún vildi kíkja á hana þó að væri laugardagur og stofan tæknilega lokuð. Held að hún hafi heyrt kökkinn í röddinni minni þegar ég lýsti ástandinu. Ég hef aðeins einu sinni áður séð kött haga sér svona, og þá var hún við dauðans dyr (og gekk inn um þær stuttu síðar).
Þegar við komum á Skólavörðustíginn tók læknirinn og aðstoðarkona hans (ung stúlka, líklegast nemi í þjálfun) við okkur hlýlega og buðu okkur inn á bak við. Kom þá í ljós að kisa var með of LÁGAN hita, aðeins um 37,5 (normal er 38,4), blóðsykurinn var of lágur og hún var ofan á allt með vökvaskort. Greyið þurfti að fá tvær saltvatnssprautur, glúkósa, stera og eitthvað eitt í viðbót, auk þess sem læknirinn tók u.þ.b. 5 röntgenmyndir af mismunandi stöðum. Hún útilokaði að eitthvað væri fast í meltingarveginum, sem var ákveðinn léttir. Hinsvegar virtist sem bæði nýru og lifur kisu væru óeðlilega stór, og einnig var húðin gulleit í eyrunum og augnhvítu, sem bendir til nýrna-eða lifrarbilunar. Ekki góðar fréttir þar, þar sem þess háttar sjúkdóma er oftast ekki hægt að lækna, sérstaklega þar sem þeir greinast seint, oftast of seint.
Við fengum sýklalyf og önnur lyf (til að hjálpa með upptöku sýklalyfjanna) sem við eigum að gefa henni. 1 stór pilla 1 x á dag, og 1 lítil pilla = 1/2 að morgni og 1/2 að kvöldi. Hún er ennþá á þeim pillum, þó sé ég ekki mikinn mun á henni.
Læknirinn bauð okkur að koma með hana aftur á mánudaginn og leyfa henni að vera í pössun á stofunni yfir vinnudaginn okkar. Þar var settur í greyið æðaleggur með (líklegast) næringu í æð, sem var algjörlega nauðsynlegt á þessum punkti. Í gær sóttum við hana aftur, ástand hennar var það sama, þó hafði hún borðað eitthvað hjá lækninum. Í gærkvöldi reyndum við að fá hana til að borða eitthvað en hún streittist eftir bestu getu (sem er nú ekki mikil í augnablikinu) þannig að við létum vera með að gefa henni vatn og vona hið besta.
Í dag kom minn elskulegi litli bróðir við til að passa hana yfir daginn, þar sem hvorki ég né kærastinn minn gátum tekið frí í vinnunni, þar sem við vorum sjálf veik í síðustu viku og misstum úr vinnu. Ég er basically á floti í vinnunni en get ekki einbeitt mér, þar sem ég er stanslaust að hugsa til kisu, hvort hún sé að þjást, hvað sé eiginlega að, hvað ég geti gert, hvað ég EIGI að gera, hvort hún lagist, hvort hún sé OK heima, hvort hún verði nokkurn tímann söm við sig aftur. Í augnablikinu getur hún bara hreyft sig ca. 1-2m í einu áður en hún gefst upp og leggst niður, eða einfaldlega hrynur niður þar sem loppurnar geta ekki haldið líkamsþyngd hennar uppi lengur.
Við erum búin að ákveða að ef ástandið batnar ekkert á næstu dögum og hún sýnir engin heilsumerki, þá verðum við einfaldlega að leyfa henni að fara. Mér líður ömurlega yfir að þurfa að taka svona ákvörðun á meðan allt er svona óljóst, það væri næstum því auðveldara ef hefði verið keyrt yfir hana, þá gæti maður amk verið VISS um að maður væri að binda enda á þjáningar saklauss dýrs. Mér finnst ég sjálfselsk og hjartalaus fyrir að hugsa um peningana sem þetta kostar, ég vil ekki þurfa að taka það inn í reikninginn en ég einfaldlega verð. Það versta er að vegna þess að hún bara birtist out of nowhere hjá vinkonu minni fyrir 5 árum þegar hún flutti inn í íbúð á Skeljanesinu og þau tóku hana að sér, þar sem hún var ómerkt og afskaplega illa farin. Þar sem engin leið var að finna út hversu gömul hún væri (ekki einsog sé hægt að skoða hringina á bolnum einsog í trjám) þá var hún einfaldlega sett sem "fædd '04", sem ég held að stemmi bara engan veginn. Ég á annan kött sem er bókað mál fæddur '04 og það er himinn og hafs munur á þeim tveim, sem ég held að sé ekki bara vegna karaktera heldur aldurs. En það er engin leið að vita það...
Ég vildi bara óska að ég væri svona 'cat whisperer' sem skyldi allt sem hún hugsaði og finndi.
------------------------------
kl. 17:17: var að fá símtal frá kærastanum sem segir mér að hún sé að fara. Ég ætla að reyna að komast heim úr vinnunni til að fara með þeim til læknisins.
Please elsku bloggvinir; sendið okkur góða strauma ef þið getið, litla fjölskyldan okkar er að missa meðlim og hjarta mitt er brostið.
-Jóna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gef oss í dag vort daglegt SPAM
30.10.2008 | 02:03
Það er ótrúlegt hvað ég fæ mikið af spam-pósti frá hinum og þessum aðilum sem hafa greinlega miklar áhyggjur af getu minni sem elskhuga, að ég tali nú ekki um hvað typpið á mér er greinilega (skv. þessum aðilum) óeðlilega lítið og þ.a.l. ófullnægjandi fyrir kvenkyns bólfélaga mína.
Skiptir þá væntanlega engu máli að ég skuli jú vera kvenmaður (líkamlega, tilfinningalega og andlega). Ég er farin að hallast að því, eftir endalausan alnets-félagsþrýsting, að ....... typpið á mér sé greinilega ekki nógu MASSÍFT til að ég geti fullnægt tjeeeeellllingunum. Ég held í alvöru að ég sé með minnimáttarkennd gagnhvart reðri mínum.
Ég meina, hvað á maður að lesa úr skilaboðum eins og þessum: (HEFST ÞÁ PISTILLINN)
"Make her scream and moan with your new and improved love-weapon!!"
"Lady problems? NO MORE, with these new and enhanced herbal supplements blablabla"
"Your love rocket will make all the ladies beg and moan for your massive rocket"
"Make your member grow inches per day (ái, seriously???) and watch the girls scream!"
Jahá. Það er ekkert annað! Bara heilar tommur á dag! En strákar, í alvörunni, væri það ekki ... dáldið..sársaukafullt? Ef draslið færi bara að vaxa um einhverja 4-8 cm á dag? D:
En það er nú ekki eins og ég sé ekki að DRUKKNA úr tilboðum frá gellunum á spamminu líka:
"I'm a blue-eyed blonde, brunette with brown eyes..."
LÖGREGLAN LÝSIR EFTIR FJÓREYGÐU KVENDI MEÐ TVÍSKIPT HÁR SEM EFTIRLÝST ER FYRIR AÐ ÉTA MAKA SÍNA EFTIR MÖKMÖKMÖK Á LA BLACK-WIDOW-TARANTULA........ persónulega vil ég nota mitt 15 tommu typpi á kvenmenn með 2 AUGU TAKK. Ekkert svona kreisí bull.
Svo er nú eitt sem ég bara........skil engan veginn:
"Big Dawgz for YOU (email-nafnið mitt), Meet the Woofiest Men at blablabla.bla.com ! Apply now!"
Greinilega er ég að drukkna í tilboðum frá fjóreygðum konum með undarlega hárgreiðslur, sem og .... mönnum .. sem... uuuuu.....gelta..? EN ÉG GET EKKI FULLNÆGT ÞEIM ÞAR SEM TYPPIÐ Á MÉR ER ÖÖÖÖÖÖÖÖMURLEGT!!!!!!!!
Ég elska internetið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ómarktækar umræður
2.7.2008 | 17:33
Í augnablikinu á sér stað heit umræða um fóstureyðingar (innan "Mest lesið") . Ég mæli með því að fólk haldi sér frá þessari umræðu þar sem kommentum er reglulega eytt þar þó þau séu málefnaleg og eigi fullan rétt á sér, vegna persónulegrar túlkunar upprunalegs höfunds bloggsins.
Ég hef aldrei getað fattað fólk sem setur fram umdeild málefni í blogginu sínu en leyfir svo ekki lýðræðislega umræðu, heldur eyðir markvisst út öllu sem hentar þeim ekki. Það er EKKI umræða, heldur flokkur af já-fólki að fróa hvert öðru. Markvisst.
Vil bara benda ykkur á að passa ykkur á þessum aðilum, ég er farin að halda að þau séu meira og minna öll saman net-tröll.
Dæmi hver fyrir sig um hvort innlegg mitt innihaldi ærumeiðingar, ég er hinsvegar á því að ég megi gagnrýna hugsunarhátt og hugmyndafræði annara ef þeir mega drulla yfir mína.
EDIT: Vil bara taka það fram að eigandi upprunalega bloggsins (Jeremías/Magnús) póstaði athugasemd minni aftur hér, með öllum texta og hlekkjum eins og þeir voru upprunalega, og virði ég hann fyrir það. Hinsvegar læt ég vera að klippa textann og pósta aftur á hans þráð, eins og hann hefur boðið, þar sem ég stend enn föst við sjónarmið mín.
Bloggar | Breytt 3.7.2008 kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (126)
Fáfræði, hatur og hræsni
6.6.2008 | 14:53
Ég get varla orða bundist yfir bæði kvenhatrinu og hommafóbíunni í ákveðnum bloggara hér á blog.is.
http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/554203/
Eftir að hafa lesið umræðuna (sem hann stjórnar og ákveður hverjir fái að vera memm og hverjir ekki, einsog ávallt), þá bókstaflega SÝÐUR Í MÉR BLÓÐIÐ!!!!
Þessir svartstakkar hjá Þjóðkirkjunni ættu bara að hundskast aftur í miðaldir þar sem þeir eiga heima með sínar kreddur og Jesúsleikjukeppnir, og hætta að sjúga ríkisspenann ef þeir geta ekki andskotast inn í nútímann! Fínt ef þeir vilja úthýsa samkynhneigðum á grundvelli sinna kenninga, en að við sem þjóð skulum styrkja svona hatur er mér ekki skiljanlegt. Leyfið þeim að vera í friði með sinn "sannleika", ég hef engan áhuga á að kenna mig við svona fólk. Þetta snýst ekkert bara um þjóðkirkjuna heldur um ÖLL TRÚFÉLÖG, og þeirra rétt til að ákveða hvort þau vilji gefa fólk saman eður ei.
Auðvitað búið að loka á umræðurnar þar sem fasistinn verður að passa að enginn rústi honum í umræðunum. Óðinn hjálpi okkur ef þetta er framtíð kirkjunnar.
Ég ímynda mér að hann læsi konuna sína inní kofa þegar hún er á túr, neiti að raka af sér skeggið, neiti að borða fisk eða skelfisk, neiti að vinna á sabbat (hvort er það; laugardagur eða sunnudagur? ákveðið ykkur!), gangi ekki í tveim mismunandi klæðum á sama tíma, eða klæðnað úr blönduðu efni. Á milli þess sem hann lemur homma og lesbíur og alla aðra í hausinn með bók sem var skrifuð af feitum fýlupúkaköllum 300 árum eftir tilkomu svokallaðs frelsara þeirra. Má taka fram að öll þessi atriði eru úr Leviticusarbók, þar sem "rökin" fyrir hommahatrinu eru fengin frá (sem og einhverju jóðli úr NT sem er álíka gáfuleg lesning, eða þannig). Drullisti til að fylgja þessu annaðhvort í öllu eða þá engu! Ekki þetta endalausa 'bland-í-poka' kristnirugl.
Páll postuli var klikkaður, hann var ekki einusinni uppi á nálægt því sama tíma og Jesú (supposedly) OG ÉG BARA SKIL EKKI HVERNIG ER HÆGT AÐ TRÚA SVONA VITLEYSU!!!!!
Ugh. Fari það allt í fúlan feðraveldispytt. Takk fyrir að eyðileggja daginn fyrir mér, Jón Valur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Kisugrey
6.6.2008 | 12:07
Það tekur í hjartað á mér að sjá forsíðu Fréttablaðsins í dag; þar sem sagt er frá óskilakisum í Kattholti.
Ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvernig fólk getur yfirgefið dýrin sín, eða hent þeim út á guð og gaddinn. Það er eins og sumt fólk lifi í einhverri massífri sjálfsblekkingu; að það haldi að dýrin munu bara "redda sér" ef þeim er hent út í Öskjuhlíð eða skilin eftir í íbúð. Ef við værum að tala um villidýr þá liti þetta kannski aðeins öðruvísi út, en málið snýst um húsdýr; sem hafa enga burði til að lifa af í náttúrunni (sérstaklega á veturna). Þegar ég var að hlúa að kisa mínum þegar hann var illa farinn kettlingur, þá spurðist ég fyrir hjá dýralækninum um hvað það kostaði eiginlega að láta svæfa ketti og kettlinga. Svarið var á þá leið að það kostar eitthvað um 1000-1500kr að svæfa fullvaxta kött, og einhverja hundraðkalla að svæfa kettlinga. Ekki beint eins og við séum að tala um háar fjárhæðir hérna.
Annað sem gerir mig alveg ga-ga, er þegar fólk neitar að gelda dýrin sín út frá einhverjum "réttinda"-sjónarmiðum, þ.e.a.s. halda því fram að t.d. læður séu að "missa af einhverju" ef maður geldir þær áður en þær ná kynþroska, eða að þær verði eitthvað skrýtnar ef þær fái ekki að gjóta a.m.k. einusinni; að það sé ómannúðlegt að gelda fressa o.s.frv. Þetta er náttúrulega háborin vitleysa, og hver sem er ætti að geta séð það að kettir eru ekki að fara að díla við einhverjar tilfinningakrísur á háum level vegna þess að þeim sé kippt úr sambandi. Þær vita ekki einusinni af hverju þær eru að missa! Skal vel skilja að fólk elski kettlinga og finnist þeir endalaust sætir og krúttlegir, en þannig er það nú bara í lífinu að kettlingar verða að fullvaxta köttum, og það þýðir ekkert að elska bara dýrin þegar þau eru lítil og sæt. Þó svo að ég þekki fólk sem tekur ábyrgð á ógeldum dýrum og öllu sem því fylgir, þá virðist þetta því miður vera algengt í þjóðfélaginu.
Nú eða þá þeir sem vilja bara kettling til að eiga kettling, og missa svo allan áhuga þegar dýrið stálpast. Sbr. kanínuæðin sem ganga hérna yfir landið reglulega, og svo endum við með heila nýlendu af kanínum að hakka í sig kirkjugarðana (hvað annað eiga þær sosem að éta?)...
Fólkið í Kattholti vinnur óeigingjarna vinnu, og er svo sannarlega ekki á einhverjum ráðherralaunum. Þau taka við þeim sem geta ekki varið sig, og passa upp á málleysingjana sem við mennirnir hendum frá okkur þegar við fáum leið á þeim. Það er ekkert grín að passa upp á 50+ ketti í þessu tiltölulega litla rými sem þau hafa til notkunar, sérstaklega þar sem mörg dýranna koma inn af götunni og eru oftar en ekki hrædd og agressív eftir því.
Kæra fólk; please PLEASE farið vel með dýrin ykkar. Geldið kettina ykkar, sérstaklega ef þið hafið ekki áhuga eða fjárráð til að díla við 3-6 kettlinga 4. hvern mánuð. Farið reglulega með dýrin í læknistjékk + ormahreinsun, og komið fram við þau af virðingu. Dýr eru ekki eitthvað sem er bara hægt að henda frá sér þegar eitthvað nýtt kemur upp á; þau eiga rétt á sínu lífi og heilsu.
Peace out.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flateyrarfílingurinn :)
2.6.2008 | 12:30
Heil og sæl öll!
Við fjölskyldan (ég + þýska stálið, bróðir minn, móðir og faðir) skelltum okkur vestur á Flateyri um helgina, til að fagna sextugsafmæli karls föður míns. Þau hjúin keyptu sér hús þarna í fyrra, eftir mikið plott og plan. Ég og bróðir minn vorum nokkuð sure á að nú væru þau endanlega farin yfirum; þ.e.a.s. alveg þangað til við stigum fæti inn í húsið í september í fyrra.
Húsið sjálft þarfnaðist töluverðra lagfæringa, þá aðallega í málningardeildinni. Ég hef aldrei almennilega skilið fólk sem velur liti eins og 'geðspítalagrænan' og 'blóðpollsrauðan' á herbergi. Skil vel að margir vilji hafa litríkt hjá sér, en KOMM ON? Sérstaklega þessi ógeðis-græni litur sem minnir mig alltaf á hvers kyns stofnanir, og þá aðallega geðspítala (þeir sem hafa gist á þeim stofnunum vita hvaða lit ég er að tala um). En nóg um það; við máluðum allt pleisið á 2 dögum í fyrra (innan frá) og komum öllum húsgögnum inn á einum degi, þar á meðal forláta skrifborði sem pabbi á og hefur fylgt honum hvert sem hann hefur farið. Þetta borð er einstaklega fallegt en afskaplega mikið FARGAN, og við þurftum að skrúfa hurðir af hjörunum, handrið af .... handriðinu, og lappirnar undan því áður en við gátum komið því inn á blessaðan ganginn, allt saman á meðan pabbi gargaði eins og geðbilaður verkstjóri (don't get me wrong, ég elska pabba út af lífinu en hann er ómögulegur í flutningum vegna stress)...þetta var ansi öflug helgi a.m.k.
En nú er húsið orðið alveg klárt og klappað, á aðeins eftir að mála ytri veggina, sem við gerum líklegast í sumar. Og sumsé; við þrjú fórum með flugi á föstudagseftirmiðdag til að hitta foreldra mína fyrir vestan.
Áður en þið farið að spyrja, þá: Jú, við erum að einhverju leiti ættuð frá Önundarfirði í föðurætt, eða þar bjó a.m.k. ein frænka föður míns lengi vel. Hinsvegar þori ég ekki að fara með nöfnin strax, þar sem ég er ekki alveg komin inn í ættfræðina ;) Aðal ástæðan fyrir þessum húsakaupum var hinsvegar sú að gamla settið vildi einfaldlega komast eins langt burt frá Reykjavík og mögulegt væri, og þessi staðsetning varð fyrir valinu eftir langt ferli.
ENNÍVEI. Við lentum á Ísafirði á föstudagseftirmiðdag og brunuðum beint á Flateyri.
Það er eitthvað svo ótrúlega þægilegt við að vera þarna í faðmi fjallanna með Önundarfjörðinn fyrir sér...Maður hættir að hafa áhyggjur af tíma eða hvers kyns skyldum; öðrum en að troða í sig góðum mat, þ.e.a.s. Þýska stálið hefur náttúrulega ekkert séð af Íslandi þar sem við erum ekki bílandi og eyðum alltaf frídögunum í sófaleti, þannig að þetta var tækifæri fyrir hann til að sjá eitthvað annað en miðbæ Reykjavíkur.
Föstudagskvöldinu eyddum við í húsinu, hámandi í okkur lasagne-að hennar mömmu (best. í. heimi.) og hlustuðum á uppáhaldsmúsikina hans pabba, sem innifelur m.a. Roy Orbison (vex með hverri hlustun), Credence Clearwater Revival (alltaf þéttir), Dire Straits (klikkar ekki) og Beach Boys (alltaf jafn flippaðir) og kjöftuðum fram á rauða nótt. Þetta endaði svo með gítar-singalong úti á verönd, búin að kveikja eld í úti-kamínunni og þónokkrir bjórar komnir í kroppinn. Tók ótrúlega fyndið video af pabba og bróður mínum að syngja So Far Away m/ Dire Straits og dansandi, sem ég held að ég þori nú ekki að pósta hér ;)
Laugardagurinn fór í langan göngutúr upp meðfram flóðgörðunum. Þar er staðsett útsýnisskífa þar sem maður getur séð nöfnin á fjöllunum og dölunum á milli þeirra. Við sátum þar í drykklanga stund og hlustuðum á hafið frussast og fuglana syngja (já eða garga, í þessu tilfelli). Held ég hafi meira að segja heyrt í lóminum í fjarska. Svo gengum við niður og meðfram fjörunni heillengi og fundum þar alls konar ryðgað drasl (er af einhverjum ástæðum ótrúlega hrifin af ryðguðum vélahlutum og drasli) og nokkra fallega steina í leiðinni. Bróðir minn byggði skúlptúr á ströndinni sem leit út eins og einhver af Elder Gods í Cthulhu Mythosinu, þetta var einsog þegar maður var krakki og fíflaðist heilu og hálfu dagana í fjörunni...
Svo var haldið heim í síðdegislúr (mjög vinsælt fyrirbæri) áður en við settumst aftur til snæðings, síðla kvölds. Ég verð bara að segja að hún móðir mín er gyðja í eldhúsinu (sem og á öðrum sviðum lífsins), í þetta skiptið var það Bacalao fiskréttur með heimabökuðu brauði og rúgbrauði, sem við hámuðum í okkur með bestu lyst. Ég og stálið höfðum lagt okkur um hálfsex, og ætlað að vakna um átta til að koma okkur í gírinn fyrir Sjómannadagsballið á Vagninum (aðalbarinn, eða í raun EINI barinn í bænum), en það endaði með 4ra klukkustunda svefni! Mamma hélt því fram að við værum svo krúttleg í svefni að hún vildi ekki vekja okkur fyrr! Þannig að kvöldverðurinn var haldinn um kl.10 um kvöldið, sem er nú reyndar ekkert óeðlilegt í minni familíu.
Eftir ánægjulegan snæðing þá héldum við stálið og bróðir minn áleiðis á Vagninn. Fyrr um daginn höfðum við hitt mann á gangi með hundinn sinn sem pikkaði í bróa og sagði "Sæll félagi, á ekki að skella sér á Vagninn aftur í kvöld?" Brói svarar "Jú að sjálfsögðu, missi ekki af F1-Rauðum!" áður en hann svo kvaddi lagsmann og sneri sér að mér og hvíslaði "Ég hef ekki hugmynd um hver þessi maður er eða hvað ég gerði þarna síðast, verið bara viðbúin öllu!" Við bjuggumst hálfpartinn við að hálfur bærinn væri bíðandi eftir honum annað hvort til að fagna endurkomu eða berja hann í buff! Síðar kom í ljós að félaginn var dyravörður á staðnum, og hafði ekkert nema gott að segja af honum brósa, thank god.
Á Vagninum var rokna stemning, F1-Rauður í ham, greinilega. Þarna var fólk á öllum aldri af hinum og þessum þjóðernum, og allir að mála bæinn rauðan. Þýska stálið var ekki búið að standa við barinn í meir en 5 mínútur áður en hann var búinn að finna hóp Þjóðverja sem voru (af öllum stöðum) frá svæðinu sem hann kemur frá! Í næsta bæ, því sem næst. Við hlógum heilmikið að þessu þar sem honum hefur ekki tekist að hitta svo mikið sem einn samlanda sinn á börunum í Reykjavík, en strax og hann er kominn í 300 manna þorp á Vestfjörðum þá birtist heill skari af þeim!
Eftir ánægjulegt kvöld á Vagninum héldum við aftur heim í hús og duttum út, öll sem eitt. Engir gítartónleikar á veröndinni í þetta skiptið
Flugferðin heim var kostuleg, það var svo mikið rok í Reykjavík að vélin hristist öll og iðaði við lendingu, ég hef bara aldrei upplifað annað eins hnjask! Er samt blessunarlega laus við alla flughræðslu þannig að mín slapp ágætlega úr því (annað en brói, sem var næstum búinn að nýta sér complimentary ælupokann...) Við vorum ótrúlega afslöppuð á því þegar við stigum inn í íbúðina okkar og heilsuðum kisunum, sem höfðu greinilega átt rólega helgi líka, fyrst ekkert var brotið og enginn slasaður, hehe.
En jæja...ég mæli a.m.k. hiklaust með helgarferðum úr borginni, það er ótrúlegt hvað þetta hleður mann alveg upp fyrir vikuna. Sérstaklega þarna fyrir vestan, það er nú einfaldlega eitthvað mystískt í loftinu þarna...Sem og það að foreldrar mínir virðast breytast úr virðulegu íhaldssömu fólki yfir í unglinga strax og þau stíga fæti inn í húsið, það er allt miklu afslappaðra og kjánalegra en í raunveruleikanum hér í Reykjavík. Maður er í kontakti við sitt innra barn, ungling og ellismell allt á sama tíma
Vona að þið hafið átt góða helgi, og að vikan verði upplífgandi. Já og burt með þetta skýjaveður, nenni ekki svona rugli!
Mun pósta hér myndum þegar ég druslast af stað í það verkefni. Er ennþá að losa úr mér Flateyrarletina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
LÖGREGLUOFBELDI
27.5.2008 | 13:43
Drengur tekinn hálstaki í verslun (greinilega 10-11) fyrir grun um þjófnað sem hann framdi ekki!
PLEASE LÁTIÐ ÞETTA GANGA!!! Fólk þarf að vita af þessari hegðun lögreglunnar!
Beinn hlekkur: http://www.youtube.com/watch?v=s94LWNcz2zc
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
...Anda inn...anda út...
25.5.2008 | 07:29
Ég er að undirbúa mig andlega undir það heljarinnar verkefni að taka á móti 54 manns núna milli 7:30 og 8:00. Á eftir því tekur við annar hópur; í heildina 75 manns milli 8:00 og 8:30.
Samtals: 129 manns á einum klukkutíma.
Anda inn - anda út.
Já, sumarvaktirnar eru spes. Oftast alveg snarvitlaust að gera á morgnana, svo lognast þetta niður upp úr eitt. Get nú ekki annað en sagt að maður vaknar a.m.k. hressilega (ef maður er ekki kominn í gírinn þá þegar) af að þurfa að díla við þetta magn af fólki. Flestir eru vanalega hressir og kippa sér ekkert of mikið upp við að þurfa að bíða í biðröð (það er nefnilega algengt að fólk VIRÐI BIÐRAÐIR erlendis, annað en sumsstaðar, ahem) og sjá hvorteðer að það er enginn annar á staðnum en ég (í svitakasti vanalega) þannig að þetta gengur nú oftast ágætlega fyrir sig. Verst er að síminn er alltaf á milljón akkúrat þegar ég get ekki tekið hann, svo þegar ég hef nægan tíma þá heyrist ekki múkk í honum! Dæmigert.
Annars, hef þetta stutt í þetta skiptið, skutla inn pistli á eftir...
Njótið sunnudagsins!
- Jóna (anda iiiiiiinnn - anda úúúúúút)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)