Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
Drungalegir dagar...
20.1.2009 | 17:18
Dauðinn virðist svífa yfir vötnum heima í litlu íbúðinni okkar. Mér finnst ég finna fyrir nærveru hans, fyrir einhvers konar andlegum þunga...yfirþyrmandi í sálinni minni.
Önnur kisan okkar (Ninja) er fárveik. Ég veit ekki hvað nákvæmlega er að henni, né virðist dýralæknirinn geta fundið út akkúrat hvað er að. Á föstudaginn varð hún allt í einu svo slöpp, virtist áhugalaus með öllu og hékk bara inni á baði þar sem gólfið er upphitað. Ég tók eftir að hún var hætt að fara að matarskálinni og borðaði lítið sem ekkert í þau skipti sem hún leitaði þangað. Hún sýndi engin viðbrögð og mjálmaði ekkert, sem er mjög óeðlilegt miðað við þessa fröken sem hafði það að vana að sýna okkur sem flest tilbrigði mjálms og mögulegt væri. Mikil kjaftatífa og karakter, var alltíeinu orðin eins og dópaður kettlingur á að líta. Við bjuggum um hana með hitabrúsum og handklæðum inni á baði og settum matinn inn með, til að halda henni og Baldri (hinum kettinum) í sundur.
Á laugardaginn hringdi ég á dýralæknastofuna á Skólavörðustíg (www.dagfinnur.is) og ræddi þar við lækninn í síma, sem bauð mér að koma bara með hana snöggvast og láta líta á. Ég varð ótrúlega þakklát að heyra að hún vildi kíkja á hana þó að væri laugardagur og stofan tæknilega lokuð. Held að hún hafi heyrt kökkinn í röddinni minni þegar ég lýsti ástandinu. Ég hef aðeins einu sinni áður séð kött haga sér svona, og þá var hún við dauðans dyr (og gekk inn um þær stuttu síðar).
Þegar við komum á Skólavörðustíginn tók læknirinn og aðstoðarkona hans (ung stúlka, líklegast nemi í þjálfun) við okkur hlýlega og buðu okkur inn á bak við. Kom þá í ljós að kisa var með of LÁGAN hita, aðeins um 37,5 (normal er 38,4), blóðsykurinn var of lágur og hún var ofan á allt með vökvaskort. Greyið þurfti að fá tvær saltvatnssprautur, glúkósa, stera og eitthvað eitt í viðbót, auk þess sem læknirinn tók u.þ.b. 5 röntgenmyndir af mismunandi stöðum. Hún útilokaði að eitthvað væri fast í meltingarveginum, sem var ákveðinn léttir. Hinsvegar virtist sem bæði nýru og lifur kisu væru óeðlilega stór, og einnig var húðin gulleit í eyrunum og augnhvítu, sem bendir til nýrna-eða lifrarbilunar. Ekki góðar fréttir þar, þar sem þess háttar sjúkdóma er oftast ekki hægt að lækna, sérstaklega þar sem þeir greinast seint, oftast of seint.
Við fengum sýklalyf og önnur lyf (til að hjálpa með upptöku sýklalyfjanna) sem við eigum að gefa henni. 1 stór pilla 1 x á dag, og 1 lítil pilla = 1/2 að morgni og 1/2 að kvöldi. Hún er ennþá á þeim pillum, þó sé ég ekki mikinn mun á henni.
Læknirinn bauð okkur að koma með hana aftur á mánudaginn og leyfa henni að vera í pössun á stofunni yfir vinnudaginn okkar. Þar var settur í greyið æðaleggur með (líklegast) næringu í æð, sem var algjörlega nauðsynlegt á þessum punkti. Í gær sóttum við hana aftur, ástand hennar var það sama, þó hafði hún borðað eitthvað hjá lækninum. Í gærkvöldi reyndum við að fá hana til að borða eitthvað en hún streittist eftir bestu getu (sem er nú ekki mikil í augnablikinu) þannig að við létum vera með að gefa henni vatn og vona hið besta.
Í dag kom minn elskulegi litli bróðir við til að passa hana yfir daginn, þar sem hvorki ég né kærastinn minn gátum tekið frí í vinnunni, þar sem við vorum sjálf veik í síðustu viku og misstum úr vinnu. Ég er basically á floti í vinnunni en get ekki einbeitt mér, þar sem ég er stanslaust að hugsa til kisu, hvort hún sé að þjást, hvað sé eiginlega að, hvað ég geti gert, hvað ég EIGI að gera, hvort hún lagist, hvort hún sé OK heima, hvort hún verði nokkurn tímann söm við sig aftur. Í augnablikinu getur hún bara hreyft sig ca. 1-2m í einu áður en hún gefst upp og leggst niður, eða einfaldlega hrynur niður þar sem loppurnar geta ekki haldið líkamsþyngd hennar uppi lengur.
Við erum búin að ákveða að ef ástandið batnar ekkert á næstu dögum og hún sýnir engin heilsumerki, þá verðum við einfaldlega að leyfa henni að fara. Mér líður ömurlega yfir að þurfa að taka svona ákvörðun á meðan allt er svona óljóst, það væri næstum því auðveldara ef hefði verið keyrt yfir hana, þá gæti maður amk verið VISS um að maður væri að binda enda á þjáningar saklauss dýrs. Mér finnst ég sjálfselsk og hjartalaus fyrir að hugsa um peningana sem þetta kostar, ég vil ekki þurfa að taka það inn í reikninginn en ég einfaldlega verð. Það versta er að vegna þess að hún bara birtist out of nowhere hjá vinkonu minni fyrir 5 árum þegar hún flutti inn í íbúð á Skeljanesinu og þau tóku hana að sér, þar sem hún var ómerkt og afskaplega illa farin. Þar sem engin leið var að finna út hversu gömul hún væri (ekki einsog sé hægt að skoða hringina á bolnum einsog í trjám) þá var hún einfaldlega sett sem "fædd '04", sem ég held að stemmi bara engan veginn. Ég á annan kött sem er bókað mál fæddur '04 og það er himinn og hafs munur á þeim tveim, sem ég held að sé ekki bara vegna karaktera heldur aldurs. En það er engin leið að vita það...
Ég vildi bara óska að ég væri svona 'cat whisperer' sem skyldi allt sem hún hugsaði og finndi.
------------------------------
kl. 17:17: var að fá símtal frá kærastanum sem segir mér að hún sé að fara. Ég ætla að reyna að komast heim úr vinnunni til að fara með þeim til læknisins.
Please elsku bloggvinir; sendið okkur góða strauma ef þið getið, litla fjölskyldan okkar er að missa meðlim og hjarta mitt er brostið.
-Jóna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)