Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Fáfræði, hatur og hræsni
6.6.2008 | 14:53
Ég get varla orða bundist yfir bæði kvenhatrinu og hommafóbíunni í ákveðnum bloggara hér á blog.is.
http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/554203/
Eftir að hafa lesið umræðuna (sem hann stjórnar og ákveður hverjir fái að vera memm og hverjir ekki, einsog ávallt), þá bókstaflega SÝÐUR Í MÉR BLÓÐIÐ!!!!
Þessir svartstakkar hjá Þjóðkirkjunni ættu bara að hundskast aftur í miðaldir þar sem þeir eiga heima með sínar kreddur og Jesúsleikjukeppnir, og hætta að sjúga ríkisspenann ef þeir geta ekki andskotast inn í nútímann! Fínt ef þeir vilja úthýsa samkynhneigðum á grundvelli sinna kenninga, en að við sem þjóð skulum styrkja svona hatur er mér ekki skiljanlegt. Leyfið þeim að vera í friði með sinn "sannleika", ég hef engan áhuga á að kenna mig við svona fólk. Þetta snýst ekkert bara um þjóðkirkjuna heldur um ÖLL TRÚFÉLÖG, og þeirra rétt til að ákveða hvort þau vilji gefa fólk saman eður ei.
Auðvitað búið að loka á umræðurnar þar sem fasistinn verður að passa að enginn rústi honum í umræðunum. Óðinn hjálpi okkur ef þetta er framtíð kirkjunnar.
Ég ímynda mér að hann læsi konuna sína inní kofa þegar hún er á túr, neiti að raka af sér skeggið, neiti að borða fisk eða skelfisk, neiti að vinna á sabbat (hvort er það; laugardagur eða sunnudagur? ákveðið ykkur!), gangi ekki í tveim mismunandi klæðum á sama tíma, eða klæðnað úr blönduðu efni. Á milli þess sem hann lemur homma og lesbíur og alla aðra í hausinn með bók sem var skrifuð af feitum fýlupúkaköllum 300 árum eftir tilkomu svokallaðs frelsara þeirra. Má taka fram að öll þessi atriði eru úr Leviticusarbók, þar sem "rökin" fyrir hommahatrinu eru fengin frá (sem og einhverju jóðli úr NT sem er álíka gáfuleg lesning, eða þannig). Drullisti til að fylgja þessu annaðhvort í öllu eða þá engu! Ekki þetta endalausa 'bland-í-poka' kristnirugl.
Páll postuli var klikkaður, hann var ekki einusinni uppi á nálægt því sama tíma og Jesú (supposedly) OG ÉG BARA SKIL EKKI HVERNIG ER HÆGT AÐ TRÚA SVONA VITLEYSU!!!!!
Ugh. Fari það allt í fúlan feðraveldispytt. Takk fyrir að eyðileggja daginn fyrir mér, Jón Valur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Kisugrey
6.6.2008 | 12:07
Það tekur í hjartað á mér að sjá forsíðu Fréttablaðsins í dag; þar sem sagt er frá óskilakisum í Kattholti.
Ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvernig fólk getur yfirgefið dýrin sín, eða hent þeim út á guð og gaddinn. Það er eins og sumt fólk lifi í einhverri massífri sjálfsblekkingu; að það haldi að dýrin munu bara "redda sér" ef þeim er hent út í Öskjuhlíð eða skilin eftir í íbúð. Ef við værum að tala um villidýr þá liti þetta kannski aðeins öðruvísi út, en málið snýst um húsdýr; sem hafa enga burði til að lifa af í náttúrunni (sérstaklega á veturna). Þegar ég var að hlúa að kisa mínum þegar hann var illa farinn kettlingur, þá spurðist ég fyrir hjá dýralækninum um hvað það kostaði eiginlega að láta svæfa ketti og kettlinga. Svarið var á þá leið að það kostar eitthvað um 1000-1500kr að svæfa fullvaxta kött, og einhverja hundraðkalla að svæfa kettlinga. Ekki beint eins og við séum að tala um háar fjárhæðir hérna.
Annað sem gerir mig alveg ga-ga, er þegar fólk neitar að gelda dýrin sín út frá einhverjum "réttinda"-sjónarmiðum, þ.e.a.s. halda því fram að t.d. læður séu að "missa af einhverju" ef maður geldir þær áður en þær ná kynþroska, eða að þær verði eitthvað skrýtnar ef þær fái ekki að gjóta a.m.k. einusinni; að það sé ómannúðlegt að gelda fressa o.s.frv. Þetta er náttúrulega háborin vitleysa, og hver sem er ætti að geta séð það að kettir eru ekki að fara að díla við einhverjar tilfinningakrísur á háum level vegna þess að þeim sé kippt úr sambandi. Þær vita ekki einusinni af hverju þær eru að missa! Skal vel skilja að fólk elski kettlinga og finnist þeir endalaust sætir og krúttlegir, en þannig er það nú bara í lífinu að kettlingar verða að fullvaxta köttum, og það þýðir ekkert að elska bara dýrin þegar þau eru lítil og sæt. Þó svo að ég þekki fólk sem tekur ábyrgð á ógeldum dýrum og öllu sem því fylgir, þá virðist þetta því miður vera algengt í þjóðfélaginu.
Nú eða þá þeir sem vilja bara kettling til að eiga kettling, og missa svo allan áhuga þegar dýrið stálpast. Sbr. kanínuæðin sem ganga hérna yfir landið reglulega, og svo endum við með heila nýlendu af kanínum að hakka í sig kirkjugarðana (hvað annað eiga þær sosem að éta?)...
Fólkið í Kattholti vinnur óeigingjarna vinnu, og er svo sannarlega ekki á einhverjum ráðherralaunum. Þau taka við þeim sem geta ekki varið sig, og passa upp á málleysingjana sem við mennirnir hendum frá okkur þegar við fáum leið á þeim. Það er ekkert grín að passa upp á 50+ ketti í þessu tiltölulega litla rými sem þau hafa til notkunar, sérstaklega þar sem mörg dýranna koma inn af götunni og eru oftar en ekki hrædd og agressív eftir því.
Kæra fólk; please PLEASE farið vel með dýrin ykkar. Geldið kettina ykkar, sérstaklega ef þið hafið ekki áhuga eða fjárráð til að díla við 3-6 kettlinga 4. hvern mánuð. Farið reglulega með dýrin í læknistjékk + ormahreinsun, og komið fram við þau af virðingu. Dýr eru ekki eitthvað sem er bara hægt að henda frá sér þegar eitthvað nýtt kemur upp á; þau eiga rétt á sínu lífi og heilsu.
Peace out.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flateyrarfílingurinn :)
2.6.2008 | 12:30
Heil og sæl öll!
Við fjölskyldan (ég + þýska stálið, bróðir minn, móðir og faðir) skelltum okkur vestur á Flateyri um helgina, til að fagna sextugsafmæli karls föður míns. Þau hjúin keyptu sér hús þarna í fyrra, eftir mikið plott og plan. Ég og bróðir minn vorum nokkuð sure á að nú væru þau endanlega farin yfirum; þ.e.a.s. alveg þangað til við stigum fæti inn í húsið í september í fyrra.
Húsið sjálft þarfnaðist töluverðra lagfæringa, þá aðallega í málningardeildinni. Ég hef aldrei almennilega skilið fólk sem velur liti eins og 'geðspítalagrænan' og 'blóðpollsrauðan' á herbergi. Skil vel að margir vilji hafa litríkt hjá sér, en KOMM ON? Sérstaklega þessi ógeðis-græni litur sem minnir mig alltaf á hvers kyns stofnanir, og þá aðallega geðspítala (þeir sem hafa gist á þeim stofnunum vita hvaða lit ég er að tala um). En nóg um það; við máluðum allt pleisið á 2 dögum í fyrra (innan frá) og komum öllum húsgögnum inn á einum degi, þar á meðal forláta skrifborði sem pabbi á og hefur fylgt honum hvert sem hann hefur farið. Þetta borð er einstaklega fallegt en afskaplega mikið FARGAN, og við þurftum að skrúfa hurðir af hjörunum, handrið af .... handriðinu, og lappirnar undan því áður en við gátum komið því inn á blessaðan ganginn, allt saman á meðan pabbi gargaði eins og geðbilaður verkstjóri (don't get me wrong, ég elska pabba út af lífinu en hann er ómögulegur í flutningum vegna stress)...þetta var ansi öflug helgi a.m.k.
En nú er húsið orðið alveg klárt og klappað, á aðeins eftir að mála ytri veggina, sem við gerum líklegast í sumar. Og sumsé; við þrjú fórum með flugi á föstudagseftirmiðdag til að hitta foreldra mína fyrir vestan.
Áður en þið farið að spyrja, þá: Jú, við erum að einhverju leiti ættuð frá Önundarfirði í föðurætt, eða þar bjó a.m.k. ein frænka föður míns lengi vel. Hinsvegar þori ég ekki að fara með nöfnin strax, þar sem ég er ekki alveg komin inn í ættfræðina ;) Aðal ástæðan fyrir þessum húsakaupum var hinsvegar sú að gamla settið vildi einfaldlega komast eins langt burt frá Reykjavík og mögulegt væri, og þessi staðsetning varð fyrir valinu eftir langt ferli.
ENNÍVEI. Við lentum á Ísafirði á föstudagseftirmiðdag og brunuðum beint á Flateyri.
Það er eitthvað svo ótrúlega þægilegt við að vera þarna í faðmi fjallanna með Önundarfjörðinn fyrir sér...Maður hættir að hafa áhyggjur af tíma eða hvers kyns skyldum; öðrum en að troða í sig góðum mat, þ.e.a.s. Þýska stálið hefur náttúrulega ekkert séð af Íslandi þar sem við erum ekki bílandi og eyðum alltaf frídögunum í sófaleti, þannig að þetta var tækifæri fyrir hann til að sjá eitthvað annað en miðbæ Reykjavíkur.
Föstudagskvöldinu eyddum við í húsinu, hámandi í okkur lasagne-að hennar mömmu (best. í. heimi.) og hlustuðum á uppáhaldsmúsikina hans pabba, sem innifelur m.a. Roy Orbison (vex með hverri hlustun), Credence Clearwater Revival (alltaf þéttir), Dire Straits (klikkar ekki) og Beach Boys (alltaf jafn flippaðir) og kjöftuðum fram á rauða nótt. Þetta endaði svo með gítar-singalong úti á verönd, búin að kveikja eld í úti-kamínunni og þónokkrir bjórar komnir í kroppinn. Tók ótrúlega fyndið video af pabba og bróður mínum að syngja So Far Away m/ Dire Straits og dansandi, sem ég held að ég þori nú ekki að pósta hér ;)
Laugardagurinn fór í langan göngutúr upp meðfram flóðgörðunum. Þar er staðsett útsýnisskífa þar sem maður getur séð nöfnin á fjöllunum og dölunum á milli þeirra. Við sátum þar í drykklanga stund og hlustuðum á hafið frussast og fuglana syngja (já eða garga, í þessu tilfelli). Held ég hafi meira að segja heyrt í lóminum í fjarska. Svo gengum við niður og meðfram fjörunni heillengi og fundum þar alls konar ryðgað drasl (er af einhverjum ástæðum ótrúlega hrifin af ryðguðum vélahlutum og drasli) og nokkra fallega steina í leiðinni. Bróðir minn byggði skúlptúr á ströndinni sem leit út eins og einhver af Elder Gods í Cthulhu Mythosinu, þetta var einsog þegar maður var krakki og fíflaðist heilu og hálfu dagana í fjörunni...
Svo var haldið heim í síðdegislúr (mjög vinsælt fyrirbæri) áður en við settumst aftur til snæðings, síðla kvölds. Ég verð bara að segja að hún móðir mín er gyðja í eldhúsinu (sem og á öðrum sviðum lífsins), í þetta skiptið var það Bacalao fiskréttur með heimabökuðu brauði og rúgbrauði, sem við hámuðum í okkur með bestu lyst. Ég og stálið höfðum lagt okkur um hálfsex, og ætlað að vakna um átta til að koma okkur í gírinn fyrir Sjómannadagsballið á Vagninum (aðalbarinn, eða í raun EINI barinn í bænum), en það endaði með 4ra klukkustunda svefni! Mamma hélt því fram að við værum svo krúttleg í svefni að hún vildi ekki vekja okkur fyrr! Þannig að kvöldverðurinn var haldinn um kl.10 um kvöldið, sem er nú reyndar ekkert óeðlilegt í minni familíu.
Eftir ánægjulegan snæðing þá héldum við stálið og bróðir minn áleiðis á Vagninn. Fyrr um daginn höfðum við hitt mann á gangi með hundinn sinn sem pikkaði í bróa og sagði "Sæll félagi, á ekki að skella sér á Vagninn aftur í kvöld?" Brói svarar "Jú að sjálfsögðu, missi ekki af F1-Rauðum!" áður en hann svo kvaddi lagsmann og sneri sér að mér og hvíslaði "Ég hef ekki hugmynd um hver þessi maður er eða hvað ég gerði þarna síðast, verið bara viðbúin öllu!" Við bjuggumst hálfpartinn við að hálfur bærinn væri bíðandi eftir honum annað hvort til að fagna endurkomu eða berja hann í buff! Síðar kom í ljós að félaginn var dyravörður á staðnum, og hafði ekkert nema gott að segja af honum brósa, thank god.
Á Vagninum var rokna stemning, F1-Rauður í ham, greinilega. Þarna var fólk á öllum aldri af hinum og þessum þjóðernum, og allir að mála bæinn rauðan. Þýska stálið var ekki búið að standa við barinn í meir en 5 mínútur áður en hann var búinn að finna hóp Þjóðverja sem voru (af öllum stöðum) frá svæðinu sem hann kemur frá! Í næsta bæ, því sem næst. Við hlógum heilmikið að þessu þar sem honum hefur ekki tekist að hitta svo mikið sem einn samlanda sinn á börunum í Reykjavík, en strax og hann er kominn í 300 manna þorp á Vestfjörðum þá birtist heill skari af þeim!
Eftir ánægjulegt kvöld á Vagninum héldum við aftur heim í hús og duttum út, öll sem eitt. Engir gítartónleikar á veröndinni í þetta skiptið
Flugferðin heim var kostuleg, það var svo mikið rok í Reykjavík að vélin hristist öll og iðaði við lendingu, ég hef bara aldrei upplifað annað eins hnjask! Er samt blessunarlega laus við alla flughræðslu þannig að mín slapp ágætlega úr því (annað en brói, sem var næstum búinn að nýta sér complimentary ælupokann...) Við vorum ótrúlega afslöppuð á því þegar við stigum inn í íbúðina okkar og heilsuðum kisunum, sem höfðu greinilega átt rólega helgi líka, fyrst ekkert var brotið og enginn slasaður, hehe.
En jæja...ég mæli a.m.k. hiklaust með helgarferðum úr borginni, það er ótrúlegt hvað þetta hleður mann alveg upp fyrir vikuna. Sérstaklega þarna fyrir vestan, það er nú einfaldlega eitthvað mystískt í loftinu þarna...Sem og það að foreldrar mínir virðast breytast úr virðulegu íhaldssömu fólki yfir í unglinga strax og þau stíga fæti inn í húsið, það er allt miklu afslappaðra og kjánalegra en í raunveruleikanum hér í Reykjavík. Maður er í kontakti við sitt innra barn, ungling og ellismell allt á sama tíma
Vona að þið hafið átt góða helgi, og að vikan verði upplífgandi. Já og burt með þetta skýjaveður, nenni ekki svona rugli!
Mun pósta hér myndum þegar ég druslast af stað í það verkefni. Er ennþá að losa úr mér Flateyrarletina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)